Upplýsingasíða um fiskeldi á Íslandi

Hér er haldið utanum ýmsar spurningar og svör um það sem tengist fiskeldi á Íslandi. Þessari síðu er haldið út af fyrirtækjum sem stunda sjókvíaeldi á Íslandi til að leiðrétta þær rangfærslur sem hafa komið fram um greinina.

Vinna í alvöru fleiri á Dominos en í sjókvíaeldi?

Nei það er alrangt. Ef teknir eru ársreikningar fjögurra stærstu fyrirtækja landsins í sjókvíaeldi kemur í ljós að þar eru 310 stöðugildi þar sem starfsmenn fá að meðaltali 887 þúsund krónur á mánuði. Sambærilegar tölur hjá Domios eru 262 starfsmenn með 627 þúsund á mánuði. Það segir ekki alla söguna því heildarlaunagreiðslur í sjókvíaeldi árið 2021 voru 3.297 milljónir króna, borið saman við 1.972 milljónir hjá Dominos.

Þarf allan þennan lax?

Samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna þarf að auka matvælaframleiðslu um 60% næstu þrjátíu árin. Þá er gert ráð fyrir að fólksfjöldi í heiminum hafi náð 9,3 milljörðum.

https://www.un.org/en/chronicle/article/feeding-world-sustainably#:~:text=According%20to%20estimates%20compiled%20by,toll%20on%20our%20natural%20resources.

Er ekki mikið af sýklalyfjum í eldisfiski?

Alls ekki. Sýklalyf eru ekki notuð í sjókvíaeldi á Íslandi og hafa ekki verið notuð. Það má einfaldlega sjá í árskýrslu dýralæknis fiskisjúkdóma:

„EFTIRLIT MEÐ LEIFUM SÝKLALYFJA Í ELDISFISKI
Árið 1999 hófst skipulagt og árlegt eftirlit með leifum sýklalyfja og annarra aðskotaefna í eldisfiski skv. tilskipun ESB nr. 96/23/EEC um eftirlit með sýklalyfjum, hormónum og öðrum aðskotaefnum í afurðum dýra og eldisfisks. Árið 2022 voru tekin alls 540 sýni úr seiðum og sláturfiski í fjölda fiskeldisstöðva og fiskvinnslna hringinn í kringum landið og voru sýnin notuð til lyfja- og aðskotaefnagreininga. Úrvinnsla sýna fer fram hjá viðurkenndri rannsóknarstofu í Danmörku og reyndust öll sýni laus við lyfjaleifar og án aðskotaefna, líkt og öll árin þar á undan.“
Semsagt, eftir skipulagt og árlegt opinbert eftirlit með leifum sýklalyfja og annarra aðskotaefna í eldisfiski frá árinu 1999 hafa aldrei verið greind sýkalyf eða önnur aðskotaefni í eldisfiski!
Í þessari sömu skýrslu kemur reyndar fram (bls. 15) að tvisvar sinnum þurfti að nota lyf við fiskeldi árið 2022. En það var ekki í sjókvíaeldi heldur í seiðum sem sleppt var í laxveiðiár.
„Rauðmunnaveiki (Yersinia ruckeri) var í tvígang staðfest sem nýsmit á liðnu ár. Sýking var fremur illvíg og olli afföllum í nokkrum útikerjum í tveimur seiðastöðvum sem ala villt laxaseiði til sleppingar í laxveiðiár (15-25 gr.). Beita varð lyfjameðhöndlun til að ná tökum á veikinni og gekk vel að koma böndum á sjúkdóminn. Bakterían er útbreidd í íslenskri náttúru og er þeim hæfileika gædd að geta lifað af magasýru meltingarvegs fugla og eru þeir taldir einn helsti smitberinn á milli svæða.“

Af hverju er ekki auðlindagjald í fiskeldi?

Það er vissulega auðlindagjald. Meira að segja tvöfalt. Annarsvegur er fiskeldissjóður og hinsvegar umhverfissjóður sjókvíaeldis. Íslensku fyrirtækin greiddu samtals 441.075.204 í fiskeldisgjald og 335.562.161 í umhverfissjóð sjókvíaeldis árið 2022. Samtals 776.637.365. Þessar greiðslur eru óháðar afkomu fyrirtækjana og miðast einfaldlega við hve mikið kemur úr kvíunum.

Gjöldin hafa hækkað verulega eftir því sem framleiðsla hefur aukist. Þannig voru greiðslur íslensku fyrirtækjanna í fiskeldisgjald 53 milljónir árið 2020 en 441 milljón tveimur árum síðar.

 

Er það rétt að Norðmenn borgi 40% skatt en Íslendingar ekkert?

Nei. Fram er komin tillaga fyrir norska þingið sem miðar að því að Norðmenn greiði 35% skatt af hagnaði, auk lítilsháttar framleiðslugjalds af eldisfiski (90 aura NRK af kílói). Hafa verður í huga að fyrstu 70 milljónir NRK (925 milljónir ISK) eru undanþegnar skatti. Auk þess sem telja má fram á móti fjárfestingar. Þannig að líklega verða það aðeins nokkur af fjölmörgum fiskeldisfyrirtækjum Noregs sem greiða skatt.

Til samanburðar má nefna að íslensk fyrirtæki greiða bæði fiskeldisgjald og gjald í umhverfissjóð, sem er óháður afkomu fyrirtækjanna. Auk þess greiða íslensk fyrirtæki hafnargjöld sem er ekki venjan í Noregi.

 

Er eldislax ekki fullur af eiturefnum?

Dýralæknir fiskisjúkdóma hefur frá 1999 rannsakað fisk úr sjókvíaeldi og aldrei á þeim tíma hafa fundist leifar af sýklalyfjum, hormónum og öðrum aðskotaefnum í afurðum dýra og eldisfisks. Á hverju ári eru tekin mörg sýni til rannsóknar og niðurstaðan hefur alltaf verið sú sama. Engin lyf finnast í íslenskum eldisfiski

 

Af hverju borga þessi fyrirtæki ekki tekjuskatt?

Það er gaman að segja frá því að þau gera það. Fjárfesting er gríðarleg í fiskeldi og það lá alltaf fyrir að fyrirtækin myndu ekki greiða tekjuskatt fyrstu árin. Ekki frekar en flest af stærstu fyrirtækjum landsins. En Arnarlax greiðir í ár 149 milljónir í tekjuskatt og mun án efa greiða tekjuskatt framvegis. Það sama munu önnur fyrirtæki gera. En það má ekki gleyma því að miklir fjármunir hafa farið að í byggja upp fiskeldið og það tekur tíma að ná hagnaði.

Þrátt fyrir að þau greiði ekki öll tekjuskatt þá eru ýmis gjöld. Það sést vel í samfélagsskýrslu Arnarlax þar sem kemur fram að skattspor Arnarlax var um einn milljarður fyrir árið 2022.

 

 

 

Af hverju er þetta ekki allt á landi?

Landeldi tekur mikið pláss og þó að Ísland sé stórt er plássið ekki endalaust. Að auki eru bara ákveðnir staðir sem koma til greina. Að auki þarf aðgang að vatni og raforku. Á Vestfjörðum, þar sem mest er um sjókvíaeldi, er slíku ekki til að dreifa. Þar er minna landrými, lítið um ferskt vatn og takmarkað aðgengi að raforku til iðnaðar.

 

 

 

Er ekki allt of þröngt í kvíunum?

Alls ekki. Í venjulegri kví eru hlutföllin um 4% fiskur og 96% sjó. Það samsvarar því að hver fiskur sé með tvö baðkör til umráða, svo það sé sett í samhengi.

 

 

 

Er fiskur í sjókvíaeldi ekki baðaður í skordýraeitri?

Nei. Það er ekki notað eitur í sjókvíaeldi nema í undantekningartilfellum við laxalús. Í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar segir: Lyf gegn laxalús hafa mjög sjaldan verið notuð á Íslandi. Nokkrar undantekningar hafa verið gerðar en íslensk eldisfyrirtæki hafa farið aðra og náttúrulegri leið til að berjast við lúsina: Hrognkelsi. Það er því alrangt að mikið sé notað af eitri í sjókvíum.

 

 

 

Hefur sjókvíaeldi áhrif á ferðamennsku?

 Það er fátt sem bendir til þess. Í raun hefur aðeins verið gerð ein alvöru könnun á viðhorfi ferðmanna til fiskeldis. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða gerði hana sumarið 2014. Þar kom í ljós að um 6 prósent ferðmanna taldi ólíklegra að það myndi heimsækja svæði með sjókvíaeldi en rúm 40% voru á öndverðum meiði. Flestur var sama og margir töldu fiskeldi frekar áhugavert.

Þess má geta að í Noregi er boðið upp á sérstakar ferðir til að skoða sjókvíaeldi og eru þær mjög vinsælar.

 

 

 

Þarf mörg kíló af fóðri til að búa til kíló af laxi?

Fóður er stærsti einstaki kostnaðarliðurinn í fiskeldi, um eða yfir 50% af framleiðslukostnaði. Fiskar eru með kalt blóð eða svipað hitastig og umhverfið hverju sinni. Dýr eru aftur á móti með heitt blóð og eru því með lakari fóðurnýtingu en fiskar.

Nýtingarhlutfall tilbúins fóðurs til matvælaframleiðslu á dýraafurðum er hæst í fiskeldi. Nú þarf 1,2 kg af þurrfóðri til að framleiða 1 kg af laxi, 2 kg fyrir kjúklingakjöt og 3 kg fyrir svínakjöt. Eldisfiskar hentar því vel til matvælaframleiðslu til að mæta aukinni eftirspurn eftir matvælum.

 

 

 

Er ekki allt of þröngt í kvíunum?

Noregur er sú þjóð sem hefur náð bestum árangri í sjókvíaeldi. Þeir flytja út um 1,3 milljónir tonna á hverju ári. Þeir hafa mesta þekkingu á laxeldi og mesta reynslu. Það sem skiptir þó kannski mestu máli var tregða íslenskra fjárfesta að leggja í fjárfestingar í þessari grein. Það er mjög dýrt að koma laxeldi á koppinn og íslenskir fjárfestar voru ekki tilbúnir til þess. Sennilega voru margri brenndir af fyrri tilraunum til laxeldis á Íslandi sem fóru ekki vel.
Norðmenn hafa því komið með fjármagn og þekkingu til Íslands. Án þeirra væri fiskeldi á Íslandi ekki á þessum stað.